Við siglum framhjá gömlum rústum af klaustri sem bíður tignarlega örlaga sinna. Í fjarska sjáum við þéttsetna eyju af litríkum húsum og hallandi kirkjuturni, Burano.

Okkur er smalað úr vatns-strætóinum, vaporetto, í þéttri mannþvögu sem tvístrast svo í sundur er við komum af bryggjunni. Á móti bryggjunni stendur appelsínugulur veitingastaður þar sem ferðalangar sitja og snæða hádegisverð. Það er komið hádegi og við ættum að finna okkur stað til að borða á, en þessi fallega eyja fangar athygli okkar algjörlega og við löðumst lengra inn í bæinn.

Burano er lítil eyja í Feneyjalóni, um 7 kílómetra Norð-Austur af Feneyjum. Eyjunni er skipt í 6 svæði eða sestiere, rétt eins og Feneyjar, og á henni búa um 2800 íbúar. Ferðamanna-iðnaðurinn hefur náð góðri fótfestu á eyjunni í gegnum áratugina, að því marki að bærinn er orðinn jafn þekktur fyrir litríku húsin sín sem og fallegu Blúndurnar, sem hafa skaffað eyjunni iðnað í mörg hundruð ár.

Það mætti líkja staðnum við að vera komin í Skandinavíska barna útgáfu af Feneyjum. Þar er þessi sama uppbygging af síkjum, brúm og þröngvum götum, en húsin eru smærri og í björtum litum. Og það ríkir stóískur friður yfir bænum og fólkinu. Hér er engin að flýta sér á næsta fund eða á hlaupum í síðasta snúningi að klára eitthvað.

Við skjótumst yfir littla brú yfir enn eitt síkið, og nálgumst hallandi kirkjuturninum sem einhvernveginn nær að minna fólk á tíman, þrátt fyrir umtalsverðan halla. Bjöllurnar klingja og minna okkur á hádegismatinn. Það ætti ekki að vera erfitt að finna stað til að borða, bærinn er fullur af fjölskyldureknum veitingarstöðum sem bjóða okkur hjartanlega velkomin, hvert sem við förum.

Eftir matinn könnum við “laugaveg” Burano, via e piazza Baldassarre Galuppi, sem var upphaflega síki sem var svo byggt yfir. Gatan er full af veitingstöðum og blúndubúðum, hver önnur fallegri. Buranísku blúndurnar urðu þekktar á 15. öld og sögur herma að jafnvel Loðvík 14. Frakkakonungur bar Buraníska blúndu á krýningarathöfn sinni. Við löbbum búðana á milli og dáumst af verkunum, sem eru alls ekki ódýr, en leggjum svo af stað aftur að síkinu.

Eftir langar letilegar stundir, við að drekka inn ljúfa lífið á eyjunni, ákveðum við að koma okkur aftur að bryggjunni til að taka vaporetto-ið aftur til Feneyja. Við flýtum okkur sem minnst og notum hverja einustu afsökun til að stoppa um stund og njóta staðarins. Tvær manneskjur sitja á endanum á götunni og mála mynd af litríku húsunum við síkið, á meðan lítill bátur flýtur undir nærliggjandi brú.

Hugmyndin um að bara.. ekki fara aftur til baka, skýst upp í kollinum.

Burano, sem dregur nafn sitt frá annaðhvort Buriana fjölskyldunni eða frá Buranello, lítilli eyju í suðri, náði ákveðnum völdum á 15. öld þegar konurnar á eyjunni sátu út í sólinni og unnu við að hanna og sauma blúndur. Blúndurnar urðu þekktar útum alla Evrópu og hefðarfólk allstaðar að hafði áhuga á að eignast eintak. Sölu fækkaði snemma á 18. öld en náði sér upp aftur síðar á öldinni með opnun skóla í blúndugerð. Blúndugerð er enn unnin á eyjunni og er flest öll handunnin, og kostar því dágóðan skildinginn.

Vatns strætóinn er kominn og aftur er okkur smalað um borð ásamt hópi af ferðafólki. Við erum heppinn, við nælum okkur í sæti. Á leiðinni til Feneyja siglum við aftur framhjá klaust-rústunum á eyjunni. Við veltum því fyrir okkur hvaða sögur klaustrið á eyjunni Madonna del Monte hefur að geyma.

Profile Picture for Jói Sigurðss
Jói, the protagonist of this site, is an experienced Game Developer. He has a special interest in Game Design, Pixel Art and old things.